143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að minnast á ummæli mín hér í gærkvöldi, um að fólk sem hefur heimilistekjur upp á 1 millj. kr., þ.e. 500 þús. kr. á mann, sé ekki hátekjufólk. Þetta var helmingurinn af því sem ég sagði í gærkvöldi, hinn helmingurinn var sá að þetta fólk, þ.e. fólk með þessar tekjur, er til dæmis tveir BHM-félagar með meðaltekjur BHM.

Ég spyr hv. þingmann: Eru ríkisstarfsmenn á taxta Bandalags háskólamanna hátekjufólk í augum hv. þingmanns?

Það kom fram í ræðu hans áðan, sem var mjög góð um margt, að þeir fengju sem ekki þyrftu og að þeir fengju sem mest hefðu. Helmingur þessara ráðstafana sem nú voru gerðar kemur í hlut fólks sem er með um það bil 6 milljónir í heimilistekjur sem vill segja tveir ASÍ-félagar á meðallaunum þess sambands. Ég veit að það er fólkið sem fyrri ríkisstjórn og flokkur hv. þingmanns hífðu upp í milliskattþrep á síðasta kjörtímabili af því að það þótti hafa svo breið bök. Það þykir okkur hins vegar ekki. Þess vegna fær þessi hópur helminginn af því sem til ráðstöfunar er samkvæmt þessu frumvarpi.

Gagnvart hópnum sem fær mest, sem hv. þingmaður ræddi hér áðan, kemur fegurðin við það hvernig þessi tvö kerfi vinna saman. Það er fólkið sem hefur ráð til þess að notfæra sér skattfrádráttinn þannig að ég bið hv. þingmann að varpa aðeins ljósi á það sem hann sagði áðan um að þeir fái mest sem hafa mest.