143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta svar. Hann segir: Það er ekki líklegt að fólk sem er með tvöföld meðallaun BHM sem heimilistekjur sé í vandræðum.

Á ferðum okkar frambjóðenda fyrir kosningarnar í fyrra hittum við þúsundir af fólki sem sagði okkur sögu sína og sem sannfærði mig þá og okkur öll enn þá meira um að nauðsyn væri á aðgerð eins og þessari.

Mig langar til þess að eiga eina sögu með hv. þingmanni. Ég hitti ágæta konu, framhaldsskólakennara, á miðjum aldri. Eiginmaðurinn var ríkisstarfsmaður í BHM. Þau voru búin að selja íbúð sem þau áttu til að fara í minni íbúð, þau stóðu í skilum, börðust um á hæl og hnakka og þessi ágæta kona sagði við mig: Ég hlakka til þess dags þegar ég get hætt að lita á mér hárið sjálf og get farið á hárgreiðslustofu til að láta gera það fyrir mig.

Það var fyrir fólk eins og þessa konu og hennar mann sem við settum fram okkar tillögur. (Gripið fram í: … grín.)

Mér þykir sorglegt að heyra fulltrúa félagshyggjuafla hlæja að þessu. Þessi húmor kom náttúrlega fram í tíð fyrrverandi stjórnar, en það er líka afar athyglisvert fyrir alla sem heyra að hann skuli koma fram með þessum hætti og mörgum örugglega mikil uppljómun.

Fyrir hvaða fólk eruð þið að berjast, hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar?