143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem ég var mjög ánægð með og á erfitt með að veita andsvar við en get þó spurt nánar út í ýmsa hluti.

Hv. þingmaður talar um skort á greiningum sem hefðu þurft að vera undirliggjandi í þessu frumvarpi. Samt eru ákveðnir hlutir sem við höfum á hreinu í gegnum frumvarpið og umræðuna bæði fyrir og eftir kosningar. Í fyrsta lagi erum við að tala um 80 milljarða en ekki 300 milljarða. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er leiðréttingarfjárhæðin hærri eftir því sem tekjur heimilanna eru hærri.

Það kemur einnig fram í greinargerðinni að 40% af fjárhæðunum, 32 milljarðar, fara til þeirra sem eru með 8 millj. kr. eða hærri árstekjur. Það þarf nánari greiningar og við þurfum auðvitað að fá að vita hvað hæsta tekjubilið fær í sinn hlut. Þó er það á hreinu, vegna þess að það er verið að draga frá aðgerð síðustu ríkisstjórnar, að þau heimili sem fá 4 millj. kr. alveg óskertar eru mjög tekjuhá og eignamikil. Öðruvísi getur það ekki orðið.

Nú kemur í ljós að samkvæmt könnunum eru 27,5% þjóðarinnar ekki ánægð með þessar aðgerðir. Hvað heldur hv. þingmaður að þurfi að breytast (Forseti hringir.) til að þjóðin verði sáttari við þessar skuldaniðurfellingar?