143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er annar vinkill og önnur greining sem skortir og það er landsbyggð andspænis höfuðborgarsvæði. Maður getur leitt að því líkur að margir þeirra sem fá niðurfellingu núna hafi hagnast umtalsvert af þróun íbúðaverðs. Ég er með fyrir framan mig skýrslu sem Hagfræðistofnun tók saman fyrir fjármálaráðuneytið á árinu 2012, „Áhrif þess að lækka höfuðstól húsnæðislána um 10–25%“, og þar er ágætistafla sem sýnir að á árunum 2000–2003 hækkuðu launin um 9,6% en íbúðaverðið um 15,5%. Á árunum 2004–2007 hækkuðu laun um 8,9% en íbúðaverð um 57%.

Síðan kemur hrunið. Þá lækka launin um 10,9% að meðaltali og íbúðaverðið fer niður um 34,8%. Á bilinu 2011–2012 fer hvort tveggja upp um 2,5% þannig að í heildina á þessum árum 2000–2012 hafa laun hækkað um 13% en íbúðaverð um 26,6%. Þeir sem eru því með skuldir á þessu bili sem miðað er við í frumvarpinu og fá hæstu niðurfellinguna gætu líka hafa hagnast umtalsvert af íbúðaverði. Sennilega er það líklegra í Reykjavík, í Vesturbænum, en til dæmis í Norðausturkjördæmi.

Finnst hv. þingmanni ekki að við þurfum að fara nánar ofan í þetta?