143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vildi spyrja hann aðeins út í þau orð sem hann hafði um greiðslujöfnunina, að framkvæmdin væri samkvæmt frumvarpinu með þeim hætti að skattfé væri tekið og greitt niður það sem hefur verið sett til hliðar á svokallaðan greiðslujöfnunarreikning og lánardrottnar hafa ekki fengið greitt vegna aðstæðnanna og munu tapa ef ekki úr bætist. Er þá ekki, eins og þingmaðurinn nefnir, ekkert verið að bæta greiðslubyrðina hjá þeim sem þannig er gert fyrir og eins verið að verja skattfé til að borga upp tiltekna áhættu hjá fjármálafyrirtækjunum sem hafa lánað þessu fólki?

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann um sjónarmið varðandi aðra hópa en þá sem hér eru undir. Hann bendir á fólk með námslán sem hafi verið verðtryggð og hafi hækkað mikið á sama tíma og þessi lán hækkuðu, á leigjendurna og væntanlega á fólkið í búseturéttarkerfinu. Finnst þingmanninum það sanngirnismál að jafnhliða þessum aðgerðum sé gripið til sambærilegra ráðstafana fyrir þessa hópa? Og hefur þingmaðurinn þá einhverjar sérstakar hugmyndir í þeim efnum? Fyndist honum eðlilegt að námslánin lækkuðu með sama hætti og verðtryggðu húsnæðislánin? Sér hann einhverjar leiðir til að taka á þessari háu leigu eins og hann rakti í þessu ágæta dæmi um einstakling sem greiðir 300 þúsund hjá félagasamtökum í leigu á höfuðborgarsvæðinu? Það er ótrúlega hátt, maður skyldi ætla að það ætti að vera niðurgreitt húsnæði en það virðist sannarlega vera fullt markaðsverð, ef ekki yfir því.