143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu ætla ég að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að vekja áðan máls á hjúkrunarrýmum í mínu kjördæmi. Ég þykist vita að vegna starfa sinna utan þessara veggja þekki hann uppbygginguna á Vífilsstöðum sem nú fer fram og mun bæta verulega úr. Ég hygg að þegar hann kom hér inn fyrir jólin hafi hann séð í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2014 að það var bætt hressilega í bæði heilbrigðismál og málefni aldraðra og öryrkja þó að margt sé enn ógert í því.

Ég gat glatt geð hv. þingmanns áðan með einni lítilli sögu úr kosningabaráttunni okkar í fyrra og nú get ég fullyrt við hann að það fólk sem við vorum að ræða við í kosningabaráttunni í fyrra og það fólk sem kemur til með að njóta best þeirra aðgerða sem hér eru boðaðar er ekki fólk sem þarf ekki á því að halda, hv. þingmaður, alls ekki. Fólk fær hins vegar nýtt tækifæri, eins og maður segir, fólk mun sjá að skuldir á húsunum þess verða viðráðanlegar aftur sem voru orðnar óviðráðanlegar. Hins vegar er náttúrlega alveg ljóst, og það veit hv. þingmaður jafn vel og ég, að það er sama hversu góðar og yfirgripsmiklar aðgerðir farið er í, okkur lánast ekki að bjarga öllum, því miður. Það á við um 110%-leiðina á sínum tíma, því miður bjargaði hún ekki öllum. Þessar aðgerðir bjarga heldur ekki öllum. Það er ekki á okkar færi að gera það. Hins vegar hafa þessar aðgerðir, þegar allt er talið, áhrif á um 80% heimila í landinu.