143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:06]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Frú forseti. Mig langar í stuttu máli að draga fram nokkur atriði varðandi það frumvarp sem hér er til umræðu. Mér finnst nefnilega umræðan hafa nokkuð farið út og suður. Við erum að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán. Við erum að ræða frumvarp um fasteignaveðlán. Við höfum lagt og leggjum áherslu á að hjálpa fólki sem er með miklar skuldir á fasteign sinni. Við teljum að það sé grunnþörf allra að hafa þak yfir höfuðið.

Við höfum barist fyrir því að hjálpa fólki sem varð fyrir forsendubresti í fimm ár. Við börðumst vel fyrir því í kosningabaráttunni fyrir ári vegna þess að flokkarnir sem sitja nú í stjórnarandstöðu sinntu ekki því úrræði sem við komum með í upphafi árs 2009. Þess vegna sögðum við að kæmumst við til valda mundum við framfylgja þeirri stefnu.

Og það er það sem við erum að gera. Við lögðum strax á sumarþingi fram áætlun í tíu liðum um hvernig við hygðumst gera þetta. Við lögðum á bankaskatt í desember með það að markmiði að hann nýttist til þess að leiðrétta húsnæðisskuldir almennings. Fyrst og fremst lögðum við áhersluna á húsnæðisskuldir og við erum með fyrir framan okkur frumvarp sem hjálpar 80% heimila í þessu landi. Það er sannarlega almenn aðgerð.

Í síðustu viku var einnig tekið til umræðu frumvarp um skattfrjálsan séreignarsparnað sem meðal annars getur nýst eða hjálpað ungu fólki til fjárfestinga í fyrstu íbúð. Þessar tvær aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru skemmtileg blanda hjá flokkunum, leið sem er metin á um 150 milljarða. Ég vil taka skýrt fram að framsóknarmenn hafa aldrei talað um þá fjárhæð sem hér er nefnd trekk í trekk og haldið á lofti í áróðri stjórnarandstöðunnar. Við töluðum aldrei um þessa 300 milljarða. (Gripið fram í: Jú, jú.)

Í þessari umræðu og víðar, m.a. í ýmsum skýrslum, hefur komið fram að skuldir heimila Íslands eru allt of háar. Við verðum að leita leiða til að lækka skuldir heimila þessa lands. Lækkun á skuldunum er því jákvæð ráðstöfun í mörgu tilliti. 50% af þessari leiðréttingu sem við erum hér að tala um fara til fjölskyldna sem eru með 4 milljónir kr. í árslaun. Það tel ég sannarlega vera lágtekjufólk.

Síðan er það miðstéttin, hinn þögli meiri hluti. Má hann ekki njóta neinna gæða eða hjálpar? Og hver er þessi miðstétt? Það eru til dæmis tveir kennarar eða safnvörður og hjúkrunarfræðingur, fólk sem í sveita síns andlits er ráðvant og reynir að standa við sitt en lenti í þessum forsendubresti. Við viljum koma til móts við þessar fjölskyldur. Við sögðum það og við ætlum að gera það. Á því hefur engin breyting orðið.

Já, mér finnst mjög furðulegt hvernig menn skilgreina hér orðið hátekjufólk. Mér hefur ekki fundist það oft þegar ég hef hlustað á fólk í kjaraviðræðunum undanfarna daga að það sé skilgreint hátekjufólk. Ég býst við að þeir sem eru að hlusta séu furðu lostnir á þeim orðum sem hér hafa fallið í dag varðandi það. Meðallaun í landinu eru 402 þúsund. Ég segi: Á þessi meðaljón ekki að njóta neinna kjarabóta? Á millistéttin ekki að fá hjálp gegn þeim forsendubresti sem hún lenti í?

Mér finnst út í hött að halda því fram að hér hafi verið ríkisstjórn í fjögur ár og að hún hafi ekki gert neitt. Þess vegna tökum við undir það sem hún gerði, en hún gerði ekki nóg. Það hefur komið fram, m.a. í þessum umræðum á þingi, að árið 2010 hafi forsætisráðherra ásamt fleirum sagt að lengra yrði ekki gengið til hjálpar heimilunum í landinu og fjölskyldunum. Þar viljum við framsóknarmenn og þessi ríkisstjórn taka við. Við viljum hjálpa heimilunum í landinu, við viljum hjálpa þessum heimilum sem lentu í vandræðum með fasteignalánin sín og út á það gengur þetta frumvarp en ekkert annað. Við erum síðan með ýmsar aðrar aðgerðir í farvatninu til hjálpar heimilum og einstaklingum.

Við skulum reyna að halda okkur við það mál sem hér er á dagskrá, þessi verðtryggðu fasteignaveðlán sem er verið að leiðrétta.

Ég tel að við höfum fundið leið, skjótvirka og skilvirka aðgerð sem jafnframt er gegnsæ og ótrúlega einföld að allri gerð fyrir neytendur. Ég hlakka virkilega til þegar fólk getur farið að reikna út hvað það fær núna 15. maí.