143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:24]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka enn og aftur andsvarið. Það er skemmtilegt að eiga orðastað við þennan ágæta varaþingmann sem hér situr. Það vill svo til að sú sem hér stendur er þjóðfræðingur. Við lærðum heilmikið. Meðal annars var okkur gert að lesa Jón Steingrímsson. Hann var hygginn maður og náði sér í nokkuð ríka konu, get ég sagt þér, mér meira að segja skylda en það er orðið dálítið langt til baka. Það er önnur saga. Margir þessara karla kunnu að ná sér í kvonfang og fá peninga með því.

Við erum að ræða skuldaleiðréttingu sem við ætlum að framkvæma. Þess vegna notum við þessa peninga og bankaskattinn til þessara leiðréttinga. Fáum við meira út úr, eins og þegar við ráðumst á ákveðna vogunarsjóði, getum við eflaust bætt úr þeim málum sem hv. þingmaður nefndi hér.