143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er hins vegar ekki alveg sammála þeirri röksemd hv. þingmanns að inn í þetta frumvarp geti ekki komið skuldir sem hafa áhrif á leigu. Ef við meinum eitthvað með því að við viljum raunverulega nota þá fjármuni sem eru til — og þingmaðurinn hefur komið ágætlega inn á að þeir séu raunverulega til — til að bæta hag sem flestra fjölskyldna í landinu og um leið lækka fasteignaveðlán, eins og þó er gert ráð fyrir í frumvarpinu, hlýtur að vera hægt að skoða þann möguleika í þessu frumvarpi. Þingmaðurinn gerir sér grein fyrir því að það verður ekki lagt fram nýtt frumvarp á þessu þingi um þá sem eru í leigu. Það er algjörlega ljóst. Hér höfum við hins vegar tækifæri til þess að lækka einnig fasteignaveðlán á (Forseti hringir.) leiguhúsnæði og koma þannig til móts við þann hóp Íslendinga.