143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:46]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sagt annað um þessa ræðu hv. þm. Helga Hjörvars en margur heldur mig sig. (ÖS: Margur er með ilsig.) Ég féll eiginlega alveg í forundran. Hann sannaði nákvæmlega það sem ég var að reyna að segja í ræðu minni, að ég héldi að við værum að ræða ákveðið frumvarp. Ég skal ræða við hann í eldhúsdagsumræðum um almenna pólitík. Hann fer hér vítt og breitt um sviðið en látum það nú vera, það er allt gott um það að segja.

Ég vil segja við hann: Bíddu eftir að það svigrúm skapist sem við höfum verið að tala um. Við töluðum aldrei um að það færi allt í eina og sömu aðgerðina. Við töldum að svigrúm mundi koma upp á minnst 300 milljarða. Það var það sem við ræddum um. Síðan töluðum við um það að við ætluðum að lækka skuldir heimilanna.

Ég er afskaplega ánægð með að mælt var fyrir þessu frumvarpi í gær, 7. apríl. (Forseti hringir.) Í mínum huga er sjö mögnuð tala, biblíutala, og ég tel að nú verði upphafið að sjö feitum árum.