143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, að svo miklu leyti sem það var andsvar. Ég vil þá kannski nota tækifærið og inna hv. þingmann eftir því hvort hún hafi í aðdraganda síðustu kosninga upplýst fimm þúsund skuldsettustu heimilin á Íslandi um það að Framsóknarflokkurinn mundi undanskilja þau í aðgerðum sínum með því að draga aðgerðir fyrri ríkisstjórnar frá þeim stuðningi sem þau ella ættu rétt á. Kannast hv. þingmaður við að hafa sagt kjósendum að þeir hafi orðið fyrir 5% forsendubresti og hún vildi leiðrétta þann 5% forsendubrest á verðtryggða hluta lána þeirra? Kannast hún við að hafa talað um það að upprisa millistéttarinnar væri að meðaltali 1 millj. kr. á hvert heimili í landinu sem skuldar húsnæðislán?