143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágætisræðu. Hún var býsna, leyfi ég mér að segja, kaldhæðin. Inntakið í frumvarpinu kemur skýrt fram. Þetta er almenn aðgerð, þetta er efnahagsleg aðgerð. Hún snýr að leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og það hefur margoft komið fram í umræðunni í dag að vissulega hafi aðrir hópar orðið fyrir forsendubresti en það eru aðrar aðgerðir sem nýtast og eiga að gagnast þar.

Ég vil halda því til haga að um er að ræða 12% lækkun á skuldum heimilanna sem eru skuldsett upp á 108% af vergri landsframleiðslu. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er það skoðun hans eða má skilja það af ræðu hans að meira eigi hreinlega ekki að gera fyrir heimilin?