143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má út af fyrir sig líta á þetta sem efnahagsaðgerð. Það er einmitt hið alvarlega. Nú er talsvert annað ástand en árið 2010 þegar mikill slaki var í hagkerfinu og við studdum mörg það að ráðist væri í almennar aðgerðir til að kippa heimilunum strax í jákvæða eiginfjárstöðu. Núna er vöxtur í hagkerfinu og þetta mun valda þenslu, þetta mun valda verðbólgu, hærri vöxtum, hærra verðlagi og margvíslegum útgjöldum fyrir heimilin. Það er auðvitað sérstaklega alvarlegt þegar heimilunum er áfram haldið í verðtryggðum lánakjörum. Það var það sem Framsóknarflokkurinn lofaði, að slíta sambandið þarna á milli í tengslum við þessar aðgerðir. Staðreyndin er einfaldlega sú að drjúgur hluti af þessari efnahagsaðgerð mun koma í bakið á skuldsettum heimilum í verðbólguáhrifum og í vöxtunum og getur jafnvel orðið hærri en stuðningurinn ef menn halda ekki þeim mun betur á efnahagsstjórninni.