143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi í fyrsta lagi leggja áherslu á þá sem þurfa sannarlega stuðnings við, eins og þingmaðurinn nefndi, en síðan líka að reyna að nálgast þann hóp sem sannarlega varð fyrir forsendubresti. Fjölmargir urðu ekki fyrir neinum forsendubresti og hafa bara hagnast ágætlega á fasteignaviðskiptum og komu lítt móðir út úr hruninu. Það er engin ástæða til að senda þeim ávísanir úr ríkissjóði þegar við höfum úr takmörkuðum fjármunum að spila.

Stjórnarflokkarnir kalla þetta almenna aðgerð. Það er hins vegar alls ekki almenn aðgerð. Þetta er mjög sértæk aðgerð vegna þess að sérstaklega eru undanskildir leigjendur, sérstaklega eru undanskildir þeir sem eru í Búseta, sérstaklega eru undanskilin námslán og þannig eru sérstaklega undanskildir þeir sem raunverulega eru í skuldavanda að verulegu leyti. Og með alls kyns slíkum sértækum aðgerðum er búið að draga úr forsendubrestinum úr þeim tæpu 20%, sem ég held að allir hafi verið sammála um að forsendubresturinn svokallaði væri, og niður í það að vera 5% af verðtryggðum skuldum.