143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Sagt var frá því í fréttum í kvöld að kaupmáttur hérlendis sé með því lakasta í Evrópu og mér finnast það nokkur tíðindi.

Þetta má sjá á vefnum Numbeo sem er kynntur sem stærsti gagnabanki heims þegar kemur að lífskjörum almennings í yfir 100 löndum.

Kaupmáttur almennings í yfir 18 ríkjum Evrópusambandsins er meiri en kaupmáttur hér á landi. Kaupmáttur hér á landi er svipaður og í Slóveníu og Póllandi og helmingi lakari en í þeim löndum þar sem hann er mestur, Lúxemborg, Þýskalandi og Svíþjóð. Lakastur er hann í Rúmeníu og Búlgaríu, þar er hann 20% lakari en hér á landi.

Lítill kaupmáttur Íslendinga helst í hendur við að hér er dýrt að lifa. Þegar vísitala neysluverðs er borin saman í rúmlega 100 löndum kemur í ljós að dýrtíðin er mest í Noregi og þar er Ísland í fimmta sæti. Matvara er líka dýr hér á landi í samanburði við önnur ríki. Hér er matvara sú fjórða dýrasta í heiminum, hún er einungis dýrari í Sviss, Noregi og Venesúela.

Ástæðan fyrir því að ég vitna í þessa frétt frá því í kvöld er sú að ég hef pínulitlar áhyggjur af þessari aðgerð sem er því miður ekki almenn aðgerð. Kannski hefði verið hægt að fara út í almenna aðgerð stuttu eftir hrun en fyrrverandi ríkisstjórn fór í ýmsar sértækar aðgerðir og þessi aðgerð er mjög svipuð, hún er mjög sértæk. Ég man að nákvæmlega það sama fólk og leggur þetta fram sem sértæka aðgerð gagnrýndi hina ríkisstjórnina mjög mikið fyrir sértækar aðgerðir. Og ég skil eiginlega ekki alveg orðræðuna hér. En ég hef áhyggjur af því að hlutirnir hafi kannski ekki verið hugsaðir alla leið núna.

Við erum mennsk og við gerum oft mistök og mér finnst þetta mjög ótraustvekjandi, ég verð að segja það, hjá hæstv. forsætisráðherra, sem lofaði þessari leið. Mér hefur verið sagt, af mér fróðara fólki, að þessi leið sé aðeins 25% af stóra Íslandsmetinu; varla telst þetta vera heimsmet, eða komast nálægt því, ekki nema þeir sem sjá um að meta heimsmet geti komið hingað og lagt mat á hvort við séum nálægt því, til er heimsmetabók Guinness. En ég hef áhyggjur af því að þetta geti haft vondar afleiðingar og þá sér í lagi fyrir þá sem trúðu því að þeir væru að fá lottómiða með því að kjósa Framsóknarflokkinn út á þessi loforð. Það var fólk sem í einlægni sinni trúði því sem því var sagt fyrir kosningar og það hefur því miður gert ráðstafanir í lífi sínu út frá því. Það fólk mun lenda í vandræðum út af því að eingöngu er verið að efna mjög lítinn hluta af því sem var lofað.

Við erum með til meðferðar hér á þinginu tvö frumvörp sem í eðli sínu eru mjög ólík. Annað frumvarpið gefur almenningi kost á því að spara og nýta sparnaðinn sinn til að lækka höfuðstólinn. Það er gott en það er samt ekki þetta loforð, það hefur ekkert með umrætt loforð að gera. Það geta ekki allir sparað og í þessari seinni leið eru þeir sem geta ekki sparað og borgað niður höfuðstól eða fengið pening fyrir útborgun til að kaupa sér fyrsta húsnæði, eða annað húsnæði ef það hefur misst húsnæði sitt, og þeir geta ekki nýtt sér neinar af þessum leiðum og mér finnst það sorglegt. Mér finnst það sorglegt þegar fólk kemst upp með að lofa upp í ermina og berja sér síðan á brjóst hér í þingsalnum og segja að þetta sé frábært. Er frábært að standa við 25% af því sem maður lofar? Ef ég væri fyrirvinna og þyrfti að standa við 100% skuldbindingar væri það þá frábært að ég kæmi bara heim með 25% og ætlaðist síðan til þess að allir mundu sýna mér skilning á því að ég gæti ekki borgað hin 75%? Það mundi ekki þykja góð stjórnsýsla og ekki gott heimilisbókhald ef það væri þannig.

Ég sakna þess verulega mikið að þeir þingmenn sem hafa staðið í forsvari fyrir þessum loforðum séu vægðarlaust heiðarlegir við sjálfa sig og þjóðina og viðurkenni að þeir gátu ekki efnt loforðin. Það er ekki gott að lofa upp í ermina á sér, sér í lagi ekki ef maður fær mikil völd. Og Framsóknarflokkurinn, sem hefur ekki stuðning alls Sjálfstæðisflokksins til að framkvæma þá aðgerð sem hér er verið að fjalla um, þarf kannski að útskýra af hverju einungis brotabrot af loforðinu er efnt með þessu. Og af hverju?

Ef ég væri að reyna að efna loforðin og reyna að fá stuðning og samheldni hjá þjóðinni þá hefði ég komið hingað inn með þessar tillögur um úrbætur fyrir leigjendur. Ég hefði fundið leið til að tryggja að þeir sem eru með búseturétt fái líka leiðréttingu. Ég hefði tryggt að þetta væri ekki sértæk leið út af því að heildstæðri leið var lofað og þetta er ekki það. Af hverju er ekki hitt komið sem tryggir að fólk upplifi ekki að það sé sniðgengið? Þeir sem eru í langverstu stöðunni eru þeir sem eru á leigumarkaði, það eru öryrkjarnir, það eru ellilífeyrisþegarnir sem mega ekki nota séreignarsparnaðinn til að borga niður af láninu sínu.

Mér finnst þetta mjög leiðinlegt. Ég hefði viljað vera jákvæð gagnvart þessu máli. Ég hefði viljað óska þess að við gætum rétt samfélagið af í einhverju öðru en ágreiningi. Það er endalaus ágreiningur í samfélaginu út af því að hér á þingi erum við alltaf að lofa einhverju, í aðdraganda kosninga, sem við getum ekki staðið við. Það er svo sem alveg sama hverjir það eru, það er einhver tilhneiging að lofa meiru en hægt er að standa við. Þetta er einhver óheillastefna í aðdraganda kosninga og núna eru að koma sveitarstjórnarkosningar og í guðs bænum ekki fara að lofa upp í ermina á ykkur sem þið getið ekki staðið fyrir út af því að fólk er komið með óþol fyrir þessu. Takið þið frekar það sem veldur óþolinu úr mjólkinni og passið að almenningur missi ekki algerlega og fullkomlega allt traust á að hægt sé að treysta fólk sem fer í þessa vinnu.

Mér finnst óskaplega skrýtið af hverju hæstv. forsætisráðherra er ekki mættur. Hvar er hann? Af hverju var hann ekki hér í gær? Þetta er málið hans. Þetta er kosningaloforðið hans. Hvar er hæstv. forsætisráðherra og af hverju getur enginn svarað, af hverju veit enginn hvernig á að útfæra þessa leið? Af hverju kom ekki þessi reiknivél með? Úr því að það var of flókið. Af hverju biðum við þá frekar?

Við erum komin út í furðulegar orðlíkingar. Við erum komin með móðuharðindin hér og saffran og ólífuolíu og pítsur (Gripið fram í: Og brennivínið.) — og brennivín og eldgos. Þetta er orðin mjög skringileg umræða og beinir athyglinni frá því að nú sitja margir með kökk í hálsinum sem trúðu því að þeir mundu komast út úr þeim erfiðleikum sem þeir eru í. Nú erum við senn að fara að loka þessari umræðu og hæstv. forsætisráðherra hefur ekki talað um þetta. Mér finnst það svo skrýtið. Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér? Getur einhver hv. þingmaður úr Framsóknarflokknum komið og útskýrt fyrir mér hvar hæstv. forsætisráðherra er og af hverju hann vill ekki tala um þetta við okkur?

Hvar er hæstv. fjármálaráðherra? Af hverju er enginn hér á ráðherrabekknum? Hvar eru ráðherrarnir? Er þetta ekki mál ríkisstjórnarinnar? (Gripið fram í: Hvar erum við stödd?) Hvar erum við stödd? Hvar er bíllinn minn og hvar er húsið? Mér finnst þetta rosalega sérstakt allt saman. Ég hefði gjarnan, eins og ég sagði áðan, viljað geta hrósað ríkisstjórninni fyrir þetta. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að skipaður var hópur sem kom saman og átti að koma með tillögur að því hvernig við gætum komið okkur út úr verðtryggingunni á húsnæðislánunum. Ég man að ég nöldraði töluvert í fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrir að berjast ekki fyrir því og tryggja að þak væri á þessum óverðtryggðu lánum. Enn er ekkert þak komið á óverðtryggðu lánin. Það var gagnrýnt hjá fyrrverandi þingmönnum sem voru þá í annarri stöðu en þeir eru í dag, af hverju er ekki tekið á því? Og af hverju er þetta ekki gert saman? Af hverju er ekki komið með samþættar tillögur sem gagnast þeim sem þurfa mest á þessari aðstoð að halda?

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, klukkan er orðin ansi margt og þeir sem ég hefði talið gagnlegast að ræða þetta mál við eru ekki í húsinu og hafa ekki verið í húsinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur í það minnsta hvorki verið í húsinu í gær né í dag til að fjalla um málið sitt. Mér finnst þetta skringilegt. Þetta er eins og að fara á bókakynningu þar sem búið er að lofa því að Halldór Laxness komi og flytji ljóð og svo kemur bara einhver allt annar og flytur það og gerir það kannski bara á norsku. Mér finnst þetta mjög skrýtið allt saman.