143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er farin að taka á sig ýmsar myndir. Hér er verið að ákalla látið nóbelsskáld (Gripið fram í.) með nafni. Við erum að ræða það að hann væri notaður í auglýsingamennsku. Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar fyrir hönd þingheims á því að umræðan skuli vera á þessu plani.

Hér var jafnframt spurt eftir hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Geta þingmenn ekki lengur rætt efnislega mál án þess að vera sífellt að hrópa eftir ráðherrum? (Gripið fram í.) Málið er komið til þingsins og er að fara í þinglega meðferð. Því verður vísað til nefndar, [Kliður í þingsal.] þetta er 1. umr. — Virðulegi forseti. Get ég fengið hljóð í salinn?

(Forseti (ÓP): Hljóð í salinn.)

Þetta er 1. umr. Eins og flestir vita fara frumvörp í gegnum þrjár umræður og jafnvel tvisvar til nefndar sé þess óskað. Ég bið um smákurteisi í þessari umræðu. Hér er um að ræða að koma skuldugum heimilum til hjálpar. (Forseti hringir.) Er hægt að hafa umræðuna á hærra plani?