143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það var alls ekki ætlunin að vera ómakleg. Ég er sammála hv. þingmanni um að þessi útreikningur er réttur og það er ánægjulegt ef einhver fær leiðréttingu á óréttlátum lánum. Mín gagnrýni snýr ekki að því. Hún snýr að því að það er mjög erfitt að átta sig á því hvernig þetta verður í framkvæmd fyrir mjög marga og síðan sitja allt of margir eftir. Ég mundi gjarnan vilja að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mundi t.d. taka tillit til þeirra sem eru með verðtryggð lán hjá Búseta. Síðan mundi ég gjarnan vilja að það væri litið til allra hinna. Það varð vissulega mikill forsendubrestur hjá leigjendum þegar hrunið varð, bara á annan hátt. Hvað á að gera fyrir þá? Það væri svo gagnlegt að tekið yrði á því og ég beini því til nefndarinnar að það verði gert.