143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér er að vísu kunnugt um að hæstv. forsætisráðherra hefur forðast þingið eftir að hv. þm. Helgi Hjörvar veitti honum verðskuldaða hirtingu hér um daginn út af þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt og þinglegt að þingheimur óski eftir því að hæstv. forsætisráðherra taki til máls og tjái skoðanir sínar á því frumvarpi sem hér er undir áður en umræðunni er lokið.

Allir vita að þó að hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra flytji málið er það að undirlagi hæstv. forsætisráðherra. Þetta er hans helsta keppikefli. Það var hæstv. forsætisráðherra sem sagði í þættinum Forystusætið í ríkissjónvarpinu að skuldaleiðréttingin ætti að vera 300 milljarðar. Hún reyndist vera 80 milljarðar.

Það var sömuleiðis hann sem upplýsti að hrægammarnir ættu að kosta hana. Það hefur ekki gengið eftir. Og það var hann sem sagði að það ætti að afnema verðtrygginguna.

Herra forseti. Ég tel því sjálfsagt (Forseti hringir.) að hv. þm. Helgi Hjörvar spyrji hvort hæstv. forsætisráðherra komi til umræðu um þessi atriði.