143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er þakkarvert að hæstv. forseti skuli hafa komið skilaboðum til hæstv. forsætisráðherra. Ég óska þá eftir því að herra forseti upplýsi hvort hæstv. forsætisráðherra hafi komið skilaboðum til hans um hvort hann hyggist koma til umræðunnar.

Ég man ekki eftir því að nokkurt mál sem nokkur forsætisráðherra hefur borið eins fyrir brjósti og barist eins fyrir hafi verið til lykta leitt við 1. umr. án þess að upphafsmaður málsins væri inntur eftir afstöðu sinni til þess. Það er eðlilegt að hv. þm. Helgi Hjörvar vilji fá tækifæri til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvers vegna það séu einungis 80 milljarðar sem renna til skuldaleiðréttingarinnar en ekki 300 milljarðar, hvers vegna þeir séu ekki fjármagnaðir af svigrúminu fræga og hvers vegna þeim sé ekki fylgt með afnámi verðtryggingarinnar, sem einn hv. þingmaður Framsóknarflokksins hefur sagt við þessa umræðu að sé forsenda þess að leiðréttingin gangi eftir.