143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir ef til vill dæmalausa ræðu, en þakkir samt. Hér fara menn mikinn í ræðustól, það er talað um hámörk og lágmörk, fólk sem fær ekkert út úr þessum aðgerðum og Reykjavík andspænis landsbyggð. Það er mjög vinsælt hjá þeim sem vilja skapa sundrung og óvild að bera saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði.

Á síðasta kjörtímabili reyndi ríkisstjórnin, sem hv. þingmaður sat sjálf í lengst af, í tvígang þvert á vilja þjóðarinnar (Gripið fram í.) í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu að koma þungum Icesave-klyfjum, (Gripið fram í: Nei!) [Kliður í þingsal.] ólögvörðum klyfjum yfir þjóðina, (Gripið fram í.) yfir komandi kynslóðir, skuldsetja landsmenn upp í rjáfur. Hvernig er hægt að standa í þessum ræðustól og gagnrýna það þegar verið er að koma (Gripið fram í: … saman.) því fólki sem varð fyrir forsendubresti með verðtryggð lán í hruninu til hjálpar? Hæstiréttur leiðrétti gengistryggðu lánin. Hvernig er hægt að bjóða fólki upp á svona málflutning?

Icesave-skuldirnar áttu að leggjast þvert yfir alla ríkisborgara landsins, alveg óháð stétt og stöðu því að ríkið átti að taka þessar skuldabyrðar á sig (Gripið fram í.) og endurgreiða svo í komandi framtíð. Hvernig getur þingmaðurinn staðið hér og gagnrýnt það þegar ríkisstjórnin er að koma fólki til hjálpar?