143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður verður bara að halda í sér hérna. (VigH: Já, …) Það er ekki nóg með að hv. þingmaður hafi í ræðustól kennslustundir í umræðum á háu plani heldur gerir hún það líka með frammíköllum. Það er náttúrlega eftir því tekið og einkennir feril hv. þingmanns á hversu háu plani hún er og hefur verið í allri sinni umræðu. (VigH: Er Vigdís Hauksdóttir á dagskrá?) Ja, maður spyr sig.

Mig langar til að velta því aftur upp, vegna þess að það er verulega mikið áhyggjuefni, hvort lánsveðsheimilin eigi í raun og veru að gjalda þess að fyrri ríkisstjórn lét sig þau varða. Er hv. þingmaður að segja að staða þeirra heimila verði látin liggja óbætt hjá garði vegna þess að fyrri ríkisstjórn lét sig þau varða? Eru það þá okkar heimili og hitt ykkar heimili? Er það svona sem hv. þingmaður hugsar þetta frá sínu mjög svo háa plani?

Hv. þingmaður talar um að mikilvægt sé að hugsa um hag landsmanna í heild. Ég er sannarlega sammála því og einmitt þess vegna finnst mér mikilvægt þegar við erum að tala um úthlutun opinbers fjár að við sýnum ábyrgð. Við höfum verið að tala um það við fjárlagagerðina og hv. þingmaður, sem er formaður fjárlaganefndar, hefur talað innblásið um ábyrgð við ráðstöfun opinbers fjár, um ábyrgð í ríkisrekstri, en þessi ábyrgðarkennd nær augljóslega ekki yfir þær aðgerðir sem hér eru boðaðar.