143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka nú hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Svo vel vill til að allt sem sagt er í þessum sal er tekið upp og afritað. Og ef við gaumgæfum þessa umræðu, hvenær sem við höfum tíma til þess, þá mun koma í ljós akkúrat það sem ég var að segja hér áðan, að menn hafa talað um að meiri hluti þeirra sem á að fá bót sinna mála samkvæmt þessu frumvarpi sé fólk með háar tekjur. Þessu hefur verið haldið ítrekað fram og við þurfum ekkert að karpa um það, (Gripið fram í.) ég og hv. þingmaður, þetta er sem betur fer til (Gripið fram í.) og við getum bara farið yfir það. (HHj: Hvaða þingmaður sagði það?) Hv. þm. Helgi Hjörvar, sem hefur nú ekki verið viðstaddur þessa umræðu fyrr en hér í blálokin, getur komist að því með því að fara yfir upptökur af þessum umræðum frá því í gær og í dag. (Gripið fram í.) Þetta hefur ítrekað komið fram hjá fleiri en einum og fleiri en tveimur þingmönnum. — Og nú er allt í einu í lagi að grípa fram í, herra forseti.

Það er allt í lagi. Aðalatriðið er það að við séum móðgaðir yfir því að fólk sé ekki sammála okkur, fjarri því. En ég viðurkenni það að ég var ögn undrandi vegna þess að hv. þingmenn minni hlutans hafa talað hér í nokkra mánuði um að þá langi til að sjá þetta frumvarp og vilji greiða götu þess í gegnum þingið. Ég get alveg viðurkennt það að viðbrögðin komu mér ögn á óvart og mér finnst hafa verið talað mikið um það sem er ekki í þessu frumvarpi og stóð ekki til að væri í þessu frumvarpi, (Gripið fram í.) en það verður bara hver að fljúga eins og hann er fiðraður.