143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni varð tíðrætt um að nú stæði til að hjálpa því fólki, svo ég umorði, sem hefði ekki fengið neina leiðréttingu fyrr. Það er rétt hjá þingmanninum að það virðist vera planið núna, óháð því hvort þessir tilteknu eða ótilteknu einstaklingar þurfi á aðstoð að halda eða ekki. Í því liggur ágreiningurinn.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þætti ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að það væri búið að greina með aðeins ítarlegri hætti en er gert í frumvarpinu hvaða hópar það eru sem þurfa mest á aðstoð að halda. Þingmaðurinn hlýtur að vera sammála mér í því að þeim ætti að hjálpa fyrst og mest.

Þingmaðurinn segir líka og raunar flestir þingmenn Framsóknarflokksins hér í kvöld að núna erum við ekkert að tala um leigufólk. Það mál er í annarri nefnd og það kemur seinna. Núna erum við ekki að tala um námslánin, það er í annarri nefnd og kemur seinna. Núna erum við ekki að tala um lánsveðin, það er í annarri nefnd og kemur seinna. En hv. þingmaður gerir sér væntanlega grein fyrir því að það verða ekki fleiri mál lögð fram á þessu þingi sem hljóta afgreiðslu. Með því að taka svona illa í ábendingar okkar um að skoða málefni þessara hópa í samhengi við þetta frumvarp er hv. þingmaður og þingmenn stjórnarflokkanna að segja að þessir hópar, sem að sönnu urðu líka fyrir forsendubresti, geti bara beðið.