143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir miður að ýfa geð míns ágæta kollega og hv. þingmanns til 30 ára eða tæplega það, Össurar Skarphéðinssonar. Hitt er svo annað mál að ég ætla ekki að draga úr því að í umræðu um þessi mál undanfarið hefur mér ekki þótt hv. þm. Helgi Hjörvar, sem hefur ekki beðið um orðið, fara nákvæmlega með tölur og ég fer ekki ofan af því. Þrátt fyrir mikla aðdáun á því hvernig hv. þingmaður hagar störfum sínum í þessu þingi ætla ég ekki að bakka með það.

Það kann vel að vera að sá sem hér stendur þurfi einhverja skólun í mannasiðum, þetta er ekki í fyrsta skipti sem honum er ráðlagt það, en ég sé ekki ástæðu til þess að sækja einkatíma að þessu sinni. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að sá tími komi og þá þætti mér vænt um það. Nú heyri ég svo illa að ég heyrði ekki frammíkall hv. þingmanns en ég vonast eftir að eiga skoðanaskipti við hana síðar.