143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Við því var að búast að umræða um þetta mál mundi að minnsta kosti taka þessa tvo daga, sem hún hefur tekið. Í þinginu hefur gefist gott tækifæri til þess að fara yfir efni frumvarpsins að sjálfsögðu og það heildarsamhengi sem frumvarpið er lagt fram í, þ.e. að það tengist öðru þingmáli, sem hér er jafnframt til meðferðar og við höfum sent til nefndar, og varðar séreignarsparnaðinn og skattalega meðferð hans til að greiða upp skuldir. Saman munu þau tvö mál geta leitt til þess að skuldir heimilanna lækka um 150 milljarða verði þeir möguleikar sem málin tvö hafa í för með sér fullnýttir. Það er alveg sama hvernig maður lítur á það, þetta er meiri háttar efnahagsaðgerð. Vissulega er það svo að öll sú fjárhæð rennur ekki beint úr ríkissjóði, heldur munu þeir sem kjósa verja séreignarsparnaði sínum inn á húsnæðislánið umfram það að geyma hann í séreignarsparnaðarsjóði þar sem hann yrði í framtíðinni skattlagður við útgreiðslu.

Engu að síður er skýr hvati, hvati sem mundi fela í sér um 40% ávöxtun þá þegar ákvörðun væri tekin í því máli, og svo í þessu máli sem við erum með hér, réttur til þess að fá færðan niður höfuðstól lánsins. Í umræðunni í dag og í gær var farið yfir undantekningartilvikin, jaðartilvikin, og þá sem ekki njóta góðs af leiðinni og þá sem njóta minna góðs af leiðinni en aðrir, og töluvert hefur verið rætt um það hvernig aðgerðin dreifist. Við höfum í frumvarpinu tölulegar upplýsingar, samantekt, um það hvernig aðgerðin skiptist hlutfallslega eftir tekjuhópum, eftir skuldum, eftir því hve mikið hvílir á heimilinu og eftir fjölskyldustærð. Einnig var farið yfir áhrif aðgerðanna eftir aldurshópum. Ég verð að segja að mér finnst allar þær töflur sem fylgja málinu draga upp jákvæða mynd, mynd sem er í líkingu við það sem maður hefði talið æskilegt að gerðist í aðgerð sem þessari.

Ef ég leyfi mér að renna aðeins yfir þessar helstu myndir. Við sjáum á fyrstu töflunni í frumvarpinu að aðgerðin dreifist þannig að langflestir, eða um 20 þúsund heimili fá á bilinu 0,5–1 milljón. Það er í ágætu samræmi við það hvernig staðan er hjá dæmigerðu heimili hvað skuldahliðina snertir. Við sjáum líka að ef við skoðum hlutfallslega dreifingu hvernig þeir sem fá allt að 4 milljónir eru á myndinni með lága súlu, þ.e. það eru um 1 þúsund heimili sem munu í aðgerðinni fá á bilinu 3,5–4 milljónir, það er í ágætu samræmi við það hvernig skuldir heimilanna dreifast þegar við erum að fara í svona almenna aðgerð. Gott og vel. Langflestir fá á bilinu 0,5–1,5 milljónir samkvæmt þessari fyrstu mynd. Á annarri myndinni sjáum við hvernig dreifingin er miðað við árstekjur. Hjá ræðumanni sem flutti ræðu á undan mér var bent á að upp undir helmingur aðgerðarinnar renni til heimila þar sem árstekjurnar eru 6 milljónir kr. eða minna. Um 60% renna til heimila þar sem árstekjur eru 8 milljónir eða minna, en 8 milljónir mundu hjá dæmigerðum hjónum vera bara meðaltekjur, 60% af aðgerðinni renna til þeirra. Þetta bendi ég á í tilefni af ábendingum sem fram hafa komið að of hátt hlutfall aðgerðarinnar renni til þeirra sem eru háar tekjur.

Töflurnar sem fylgja frumvarpinu draga líka fram hlutdeild þeirra. Af heildaraðgerðinni renna 15% til heimila þar sem árstekjurnar eru 12 milljónir eða meira. Er það óeðlilegt? Er of í lagt við þau heimili? Það verður að skoðast með hliðsjón af öðrum upplýsingum sem koma fram í málinu. Það verður til dæmis að skoðast með hliðsjón af því að um 5% aðgerðarinnar renna til heimila þar sem skuldirnar eru 50 milljónir eða meira. Það er nokkuð merkileg staðreynd að þó nokkuð er um það að skuldir séu enn þetta háar, 50 milljónir eða meira, þrátt fyrir allar skuldaaðlaganir, sértækar skuldaaðgerðir, 110%-leið og allt slíkt. Það er samkvæmt línuritinu um 5% af heildaraðgerðinni sem rennur til heimila þar sem slík staða er. Þar sem við vitum að samhengi er á milli skuldastöðunnar og mánaðarlauna, árstekna heimilisins, þá er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að hluti aðgerðarinnar renni til heimila þar sem tekjur þeirra eru þetta háar eins og ég nefndi, 12 milljónir eða meira. Það verður að skoðast í því samhengi að eftir því sem launin eru hærri eru líkurnar á því að skuldirnar séu hærri, meiri. Þá kynni einhver að velta upp því sjónarmiði eða velta upp þeirri spurningu hvort viðkomandi hafi bara ekki einfaldlega gengið of langt, reist sér hurðarás um öxl, hafi ráðist í of mikla fjárfestingu miðað við kaupgetu.

Það breytir því ekki að ef við ætlum að fara í almenna aðgerð skiljum við menn ekki út undan og við tökum tillit til þess að forsendubrestur, að því marki sem hann hefur átt sér stað, snerti það fólk líka. Og þegar horft er til greiðslubyrðarinnar hefur forsendubresturinn jafnvel orðið enn meiri hjá því fólki vegna þess að greiðslubyrðin vex svo gríðarlega og langt umfram það sem hægt er að gera ráð fyrir að laun geti vaxið hjá þeim hópum. Við vitum þvert á móti að laun hjá þeim sem hafa verið í hæstu tekjuhópunum hafa lækkað mest á undanförnum árum.

Það er ágætisjafnvægi í aðgerðinni hvað þetta snertir. Það graf sem er merkt mynd 5 sýnir okkur líka að það er algengast að skuldin sé um 15–20 milljónir, þ.e. lán sem eru á bilinu 15–20 milljónir fá hlutfallslega mest í aðgerðinni. Það eru kannski hin dæmigerðu lán á höfuðborgarsvæðinu, enda vitum við það að helmingur allra lána er 15 milljónir eða minna.

Ég hef áður nefnt það í umræðunni að hærra hlutfall rennur til barnmargra fjölskyldna. Þegar við skoðum mynd sem sýnir hvernig aðgerðin dreifist eftir aldurshópum dregst upp mynd sem maður hefði kannski fyrir fram gefið sér, þ.e. tiltölulega ungt fjölskyldufólk fætt á bilinu öðrum hvorum megin við 1970 til 1980 á mestan hluta í aðgerðinni. Þetta eru bara dæmigerð ung hjón sem eiga börn. Þarna er mestur þunginn í aðgerðinni.

Tvennt var mjög áberandi í umræðunni í gær og í dag, þ.e. þeir sem ekki njóta góðs af aðgerðinni, þeir sem eru á leigumarkaði, þeir sem eru í félagslegum íbúðum, námsmenn sem eru með verðtryggð námslán og annað þess háttar. Því er til að svara að aðgerðin hefur ávallt miðað við verðtryggð fasteignalán. Grunnhugsunin er sú að heimilið sé skjól fjölskyldunnar og fjölskyldan grunneining í þjóðfélaginu. Í ljósi þess að margir hafa fengið lán sín leiðrétt eftir dóma, þá er ég að vísa til þeirra sem voru með gengistryggð lán, hversu margir hafa fengið slík lán leiðrétt í fyrsta lagi, og að þeir sem voru með óverðtryggð lán urðu ekki fyrir eins miklum skakkaföllum þó þeir hafi kannski ekki verið mjög margir hlutfallslega á móti þeim sem voru með verðtryggð lán, þá var komið að því að taka á verðtryggða hlutanum.

Einu tek ég eftir í umræðunni. Það virðist vera óskaplega lítill ágreiningur um að það hafi þurft að gera meira, jafnvel eftir það sem gert var á síðasta kjörtímabili. Ég heyri meira talað um að gera eigi þetta einhvern veginn öðruvísi, að dreifa svigrúminu með félagslega réttmætari hætti, að félagslegt tillit skorti inn í aðgerðina. Gott og vel. Við getum kannski tekist á um það hvort þetta hefði átt að gerast aðeins öðruvísi. En það er jákvætt að minnsta kosti að forsendubresturinn sé viðurkenndur eða að þörfin sé viðurkennd til frekari aðgerða. Það er alla vega eitthvað til að vera sammála um, þannig að menn taki það nú frá þessari umræðu.

Varðandi tekjuviðmið, skuldaviðmið, eignaviðmið og önnur slík atriði verð ég að segja að það voru slík viðmið sem einkenndu flestar aðgerðir á síðasta kjörtímabili og það reyndist gríðarlega tafsamt að fylgja slíkum úrræðum. Það úrræði var nánast fullreynt á síðasta kjörtímabili. Það er alveg sama hvar maður stígur niður fæti og skoðar einstök úrræði, hvort sem það er 110%-leiðin eða annað, þá er svo auðvelt að finna jaðartilvik sem æpa á mann og virðast mjög ósanngjörn, eins og í 110%-leiðinni. Hvers vegna fær sá sem er yfir 110% hjálparhönd, en sá sem er undir 110% fær ekkert? Hvað er 110%? Hvað er sanngjarnt við það yfir höfuð ef á annað borð á að koma fólki til aðstoðar að skilja það þá eftir með 110% skuldsetningu? Hver er hvatinn til þess að halda áfram með 110% skuldsetningu?

Sama gildir með ýmiss konar tekjuviðmið og aðrar leiðir til að stýra fjármagninu í einhverja átt, menn lenda alltaf í jaðartilvikum sem æpa á mann sem ósanngjörn. Það er kostur við þessa aðgerð að mjög er dregið úr slíkum áhrifum, enda snerta aðgerðirnar tvær gríðarlegan fjölda heimila. Það er vegna þess að þetta er almenn aðgerð.

Síðan hefur það verið nefnt að aðgerðin sé ekki að umfangi í samræmi við það sem áður hefur verið rætt. Þá verður maður að spyrja: Er verið að kalla eftir því að sett sé meira í þetta? En mér finnst það yfirleitt fylgja að verið sé að setja of mikið. Í aðra röndina er kvartað yfir því að það sé ekki nóg og í hina sagt að þetta sé um of í ljósi skuldastöðu ríkissjóðs o.s.frv. Ég veit því ekki hvar maður á að fá einhver skilaboð úr umræðu þar sem þversagnirnar eru svona miklar. Aðalatriðið er að þetta er fjármögnuð aðgerð. Hún dreifist á fjögur ár. Það eru 20 milljarðar nú þegar komnir inn í fjárlögin. Það ofgerir ríkissjóði ekki vegna þess að ríkissjóður verður rekinn með afgangi á þessu ári, 2014. Með því að við tókum ákvörðun um hækkun bankaskattsins eigum við að hafa borð fyrir báru til að fylgja aðgerðinni eftir næstu fjögur árin.

Ég tel að við höfum fengið gott veganesti fyrir nefndina til að vinna úr. Málið gengur nú til efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vil þakka fyrir þann góða tón sem hefur heyrst í þinginu um að menn vilji greiða götu málsins, jafnvel þótt ekki sé full eining um efnisatriðin, til að við getum lokið meðferð málsins fyrir lok þingsins.

Ég ætla að nefna í blálokin að einn af stóru kostum þessa máls er að það á að vera einfalt í framkvæmd að sækjast eftir og ganga frá uppgjöri á málinu. Það verður án vafa þannig að tæknilegir erfiðleikar verða á leiðinni og ýmis flækjustig, en við teljum að þeir sem (Forseti hringir.) koma að þeim þætti séu vel undirbúnir og með alla nauðsynlega þekkingu til að fylgja því eftir.

Að svo mæltu þakka ég fyrir umræðuna og mælist til þess að málið gangi til nefndar og 2. umr.