143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir að það séu margar góðar greiningar á hópnum í greinargerðinni. Ég vil því spyrja hann: Hvers vegna er ekki að finna þar greiningu eftir eignastöðu? Væri ekki eðlilegt að hafa hana á borðinu? Hvað eiga þeir sem skulda yfir 50 milljónir? Er eðlilegt að þeir sem borga auðlegðarskatt vegna mikilla eigna fái framlög úr ríkissjóði? Er Sjálfstæðisflokkurinn þeirrar skoðunar að þeir sem komast ágætlega af í lífinu eigi að fá styrki úr ríkissjóði?

Í öðru lagi. Hér hefur mikið verið deilt um prósentur. Ég hygg að meðallánið sé nærfellt 18 milljónir og hæstv. fjármálaráðherra staðfestir hér að meðalframlagið til skuldugra heimila sé um 1 milljón. Getum við ráðherrann verið sammála um að 1 milljón af liðlega 17 sé um 6% leiðrétting? Þannig að þeirri deilu sé eytt.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Þegar ríkisstjórnin talar um 150 milljarða kr. umfang aðgerða, er það ekki rétt skilið að þetta frumvarp sé 80 milljarðar af því? Í því er um að ræða 72 milljarða skuldaleiðréttingu en 8 milljarðar fara síðan í vaxtagjöld ríkissjóðs næstu fjögur ár af þeirri leiðréttingu. Hér er um að ræða 72 milljarða kr. raunverulega leiðréttingu í þessu frumvarpi. Í þeim 70 milljörðum sem liggja í séreignarsparnaðinum er það bara ýtrasta heimild fólks til að leggja til hliðar og hlutur ríkissjóðs af því er aðeins 25%, mínus persónuafsláttur, í mesta lagi kannski skattafsláttur upp á liðlega 5 milljarða á ári. Framlag ríkissjóðs í þessum pakka nemur þá 72 milljörðum plús liðlega 5 milljarðar á ári næstu þrjú árin, eða um 88–89 milljarðar í heildina sem framlag ríkissjóðs af þessum 150 milljörðum.