143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrra atriðið sem snýr að þessum tölulegu útreikningum fer eftir því við hvaða heildarskuldir heimilanna við miðum. Hér er mikilvægt að við skoðum skuldirnar sem aðgerðin beinist að, sem eru verðtryggð íbúðalán. Þau eru ekki 1.900 milljarðar, þau eru töluvert lægri tala. Hins vegar getur verið að heildarskuldir heimilanna að meðtöldum öllum neyslulánum og yfirdráttarlánum og öllu slíku séu einhvers staðar á þessu bili.

Varðandi viðmiðin sem hv. þingmaður spyr um get ég bara sagt að við frekari útreikninga kom í ljós hversu viðkvæm aðgerðin er fyrir breytum. Eftir því sem við gefum okkur fleiri forsendur í þessu, þeim mun viðkvæmari verður nákvæm niðurstaða fyrir breyttum forsendum. Þess vegna er sú leið farin að lista ekki upp (Forseti hringir.) nákvæmlega allar smáforsendur vegna þess að þá værum við í meiri óvissu um (Forseti hringir.) hvaða heildarkostnaður hlytist af því. Ég tel hins vegar að þeir reikningar sem hafa verið kynntir til þessa gefi býsna glögga mynd af (Forseti hringir.) umfangi aðgerðarinnar.