143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[00:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engar sjálfstæðar forsendur til að meta tæknilegu erfiðleikana eða tæknilega flækjustigið í þessu máli. Ég treysti bara þeim sérfræðingum sem hafa komið að þessu, sérstaklega horfi ég til reynslunnar sem hefur safnast hjá ríkisskattstjóra við að taka rafrænt við gögnum og vinna úr þeim og leggja á skatta í landinu á nokkurra mánaða tímabil á ári. Ég er hins vegar ekki í neinum vafa um að einhverjir munu verða í vandræðum með að sækja um rafrænt. Ég geri líka ráð fyrir því að upp muni koma ýmis jaðartilvik þar sem reynist erfitt að framkvæma útreikningana vélrænt og svo verða einhver tilvik þar sem fólk verður ósátt við niðurstöðuna, telur hana reista á röngum upplýsingum eða röngum forsendum. Það mun þurfa að vinna úr þeim fjölda.

Ég ætla að leyfa mér að vera með þá ágiskun að þetta kunni að falla einhvers staðar nærri 80 til 20% reglunni, að við komumst í gegnum 80% af málinu vélrænt og án stórkostlegra vandræða, en við megum alveg gera ráð fyrir því að allt að 20% kunni að þurfa frekari skoðunar við. Það verður þá að koma í ljós. Ég veit einfaldlega að ríkisskattstjóri gerir ráð fyrir því að þurfa að leiðbeina fólki í gegnum ferlið.

Varðandi lögaðilana. Það er rétt að tekin var sérstök ákvörðun um að beina aðgerðinni að einstaklingum. Eru þeir sem til dæmis hafa leigt af leigufélögum algjörlega út undan? Ég segi: Nei, þeir er ekki alveg út undan. Í fyrsta lagi kann að vera að þeir hafi misst húsnæði sitt, þeir hafi átt húsnæði og séu núna á leigumarkaði. Þeir munu þá geta notið góðs af aðgerðinni vegna þess að þeir geta átt inni skattalega inneign vegna fasteigna sem þeir misstu í hruninu. Ef þeir eru á leigumarkaði geta þeir líka notið góðs af séreignarsparnaðarleiðinni, vegna þess að hún býður upp á að þeir leggi fyrir með skattafslætti til þess að ráðast (Forseti hringir.) í fasteignakaup síðar, þeir eru ekki skildir eftir hvað þetta snertir.

En það er rétt að aðgerðin beinist fyrst og fremst að einstaklingum en ekki að lögaðila.