143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[00:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin.

Er það ekki rétt skilið hjá mér að umsóknirnar allar þurfi að liggja fyrir til þess að hver og einn fái sína niðurstöðutölu? Þannig hef ég skilið þetta. Mér finnst mikilvægt að það liggi fyrir vegna þess að hér hefur komið fram í umræðunni í gær og í dag, ekki hjá mörgum en hjá stöku þingmanni, að menn haldi að um leið og þeir sæki um, 15. maí eða síðar, komi einhver tala fram, ekki þannig að þeir sæki um og svo komi ekkert í ljós fyrr en í fyrsta lagi 1. september og að líkindum síðar vegna þess að heildarumfangið þarf að liggja fyrir áður en talan fellur hverjum og einum í skaut.

Ég spyr: Ef 80% liggja fyrir strax og úrvinnsla 20 prósentanna sem út af standa tekur einhverjar vikur, (Forseti hringir.) megum við búast við því að talan sem hver og einn á von á að fá liggi ekki fyrir fyrr en þegar vel er liðið á haustið?