143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[00:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki haldið ræðu um þetta mál en ég hef hlustað á næstum því hverja einustu ræðu sem hefur verið flutt um það. Ég er þeirrar skoðunar að það sé bæði sanngjarnt og rétt og að ríkið hafi efni á því að leggja fé af mörkum til þess að hjálpa þeim sem eru í verstum málum út af verðtryggðum húsnæðisskuldum. Sú afstaða mín er algjörlega í samræmi við það sem ég sagði löngu fyrir kosningar. Ég held að það sé rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að í salnum ríkir ekki ágreiningur um markmiðið heldur um útfærsluna. Ég er ósáttur við útfærsluna og það er í samræmi við fyrri afstöðu mína. Ég tel meira að segja að þeir 80 milljarðar sem beinlínis fara af ríkisins hálfu mundu duga til þess að ná því fram sem ég taldi æskilegt fyrir kosningar og tel enn æskilegt, þ.e. að kvöl þess hóps sem varð langverst úti verði linuð.

Ég tel líka að strúktúrinn á þessum pakka, þ.e. annars vegar skuldaniðurfellingin og hins vegar skattalækkunin, sé ágætur. Hið fyrra hefur klárlega þensluaukandi áhrif, meðan hin síðari dregur úr þeim. Það er mjög jákvætt. En ég á erfitt með að fallast á að við séum að afhenda fé úr ríkissjóði til þeirra sem urðu ekki fyrir neinum forsendubresti. Þeir sem keyptu til dæmis íbúðir þegar íbúðaverð var lægst, 1998, 1999, urðu ekki fyrir honum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist ekki svolítið skrýtið að við, ég og hann og skattborgararnir, skulum vera að láta þetta fólk fá peninga og finnst honum ekki svolítið skrýtið að fólk sem er það vel efnað að það borgar auðlegðarskatt til hans og okkar skuli líka fá kannski á þriðju milljón? Það eru dæmi um það tel ég.