143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[00:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. þingmaður segir þörf fyrir aðgerðir en að hann vilji sjá útfærsluna með einhverjum öðrum hætti. Mér finnst alveg málefnalegt sjónarmið að hafa skoðun á því hvernig aðgerðin er framkvæmd, en ég þykist hafa lesið um það einhvers staðar í blöðum nýlega að hv. þingmaður hafi í þingflokki sínum verið talsmaður þess að fara í almenna niðurfærslu húsnæðisskulda. Það kann að vera að ekki sé rétt eftir haft innan úr þingflokki Samfylkingarinnar, en einhvers staðar var birt fyrir stuttu síðan að mikið hefði verið rætt um það í þingflokki Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili að fara í almenna niðurfærslu skulda með flötum niðurfærslum í anda þess sem við erum að ræða í þessu frumvarpi. Það væri fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður kannast við að hafa verið mótfallinn því þá.

Varðandi eignafólk, þá sem greiða auðlegðarskatt og eru með hátt hlutfall eigin fjár, bendi ég í fyrsta lagi á að tölurnar sem við erum með fyrir framan okkur segja okkur að meginþorri aðgerðarinnar rennur til þeirra sem skulda meira en 5 milljónir, einhvers staðar yfir 95%. Mér sýnist taflan benda okkur á að um 97% renni til heimila þar sem skuldirnar eru a.m.k. 5 milljónir.

Ef við skoðum töfluna yfir það hverjir borga auðlegðarskattinn er það ótrúlega hátt hlutfall af eldra fólki sem ég geng út frá að sé laust undan skuldum, enda skulum við hafa í huga að um helmingur þjóðarinnar, helmingur húsnæðiseigenda, skuldar ekki neitt og fær ekkert út úr þessari aðgerð. Það eru mjög miklar líkur til þess að þeir sem í dag greiða auðlegðarskatt og eru með hreina eign yfir 100 milljónum séu ekki með mikið af húsnæðislánum á heimilum sínum.