143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[00:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert 100% öruggt varðandi neina skattheimtu hjá ríkinu og oft látið reyna á heimildir þingsins til þess að leggja skatta á eignir og tekjur, en öll lögfræðiálit sem ríkisstjórnin hefur fengið um þessi efni benda til þess að skattlagningarheimildir löggjafans séu mjög rúmar og þeim séu mjög lítil takmörk sett í stjórnarskrá. Af þeirri ástæðu hef ég ekki svo miklar áhyggjur af lögmæti skattsins.

Við skulum líka hafa í huga hér að það er hluti þessarar aðgerðar að hún verði fjármögnuð á hverju ári með sérstöku framlagi þingsins þannig að þingið, ef í harðbakka slær eins og mér finnst hv. þingmaður hafa áhyggjur af, að fjármögnun aðgerðarinnar bresti hreinlega, hefur það úrræði að grípa inn í á síðari stigum og leita annarra leiða til fjármögnunar eða bregðast við á annan hátt.

Varðandi það að (Forseti hringir.) afmarka hópa, eins og hv. þingmaður nefnir að hafi verið skynsamlegt, er það alveg ótrúlega tímafrekt og flókið verkefni og það verða til óendanlega mörg jaðartilvik (Forseti hringir.) þar sem lítill munur er á stöðu manna en annar fær fulla aðstoð og hinn ekki neitt. Það er ókosturinn við að handtína menn inn í úrræðið.