143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

ríkisendurskoðandi og ríkisendurskoðun.

488. mál
[00:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka forseta og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir skörulega framsögu fyrir frumvarpinu. Ég vil nota tækifærið og lýsa því yfir að ég er algjörlega samþykkur þeirri meginbreytingu sem felst í því að Alþingi kjósi ríkisendurskoðanda. Það undirstrikar sjálfstæði þeirrar stofnunar.

Mig langar, herra forseti, af því að Alþingi ber ábyrgð á Ríkisendurskoðun samkvæmt þessum lögum og við erum í formlegum starfstengslum við stofnunina að lögum, að vekja aðeins máls á réttindum starfsmanna stofnunarinnar. Þeirra er getið í einni setningu, þar sem sagt er að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um starfsfólk Ríkisendurskoðunar. Þetta er lítill vinnustaður. Þar er starfsmannafélag þeirra 40–50 starfsmanna sem þar vinna. Ég velti fyrir mér með hvaða hætti skýlir Alþingi þeim ef koma upp erfið mál á vinnustaðnum. Það er vel þekkt á litlum vinnustöðum að menn eigi oft skjól í stéttarfélagi sínu, en þetta er lítið félag. Við vitum að á öllum litlum vinnustöðum eins og stórum koma upp alls konar mál, t.d. einelti og annað slíkt. Ég spyr: Ef slík mál er ekki hægt að leysa á þeim vinnustað gæti þá starfsmaður eða starfsmenn eða félagið leitað ásjár og skjóls hjá forsætisnefnd þingsins ef þeir telja þess þörf?