143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

ríkisendurskoðandi og ríkisendurskoðun.

488. mál
[00:25]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og enn fremur þau ummæli hans sem lúta að málinu sjálfu.

Ég skal bara játa það að það mál sem hv. þingmaður spyr mig um kom ekki upp í umræðunni þegar við vorum að undirbúa málið og ég var þátttakandi að slíkum undirbúningi frá miðju síðasta ári. Ég held hins vegar að þetta sé brýn spurning og hlutur sem ætti að íhuga aðeins betur þegar málið kemur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Annars vegar hefur Ríkisendurskoðun mikið sjálfstæði, og reynt er að skýra það sem mest í frumvarpinu, en hins vegar er hún líka sjálfstæð stofnun á vegum Alþingis og þess vegna er þetta samband Alþingis og Ríkisendurskoðunar kannski aðeins flóknara en manni sýnist við fyrstu sýn.

Við vitum að í flestum stofnunum sem heyra undir ríkið og reyndar í fyrirtækjum almennt hefur verið lögð aukin áhersla á það sem menn hafa kallað nú orðið mannauðsstjórnun, þ.e. starfsmannahald og ýmislegt sem lýtur að þjónustu við starfsmenn. Til dæmis hér á Alþingi höfum við verið að stíga lítil skref í þá átt með því að styrkja starfsmannaskrifstofu Alþingis sérstaklega með þeim hætti, til dæmi til að takast á við möguleg slík mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og líka önnur mál sem lúta að endurmenntun, símenntun og mögulegum framgangi fólks í framhaldi af því.

Ég tel hins vegar rétt og árétta það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði þennan þátt málsins sérstaklega í ljósi þess með hvaða hætti þessi réttindi verði tryggð umfram það sem gert er ráð fyrir í lögum um opinbera starfsmenn sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni líka í þessu sambandi, sérstaklega það sem lýtur að sambandi Alþingis og Ríkisendurskoðunar.