143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

ríkisendurskoðandi og ríkisendurskoðun.

488. mál
[00:29]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu árétta þau meginsjónarmið sem ég setti fram. Staðan er þessi. Annars vegar erum við að tala um stofnun sem er sjálfstæð stofnun á vegum Alþingis. Það er áréttað sérstaklega í 1. gr. frumvarpsins að ríkisendurskoðandi, og Ríkisendurskoðun er stofnun á hans vegum, er sjálfstæður, það er þannig. Hins vegar er samband Alþingis og Ríkisendurskoðunar líka mjög skýrt. Þetta er hlutur sem við þurfum að hyggja að og mögulega styrkja með einhverjum hætti, þ.e. það sem lýtur að starfsmannamálum ef ástæða þykir til. Ég vil eingöngu árétta það að auðvitað hefur sú þróun átt sér stað að menn hafa verið að gera sér æ betur grein fyrir mikilvægi mannauðsins. Það á ekki síst við um stofnun eins og Ríkisendurskoðun sem byggir fyrst og fremst á mannauðnum og byggir á því að fólki líði vel innan hennar vébanda og geti sinnt störfum sínum með þeim hætti sem fólk vill að það geti gert. Þess vegna er full ástæða til að velta þessu máli fyrir sér. Ég tel að eðlilegt sé að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skýri það mál frekar í vinnu sinni.