143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu hennar og get tekið undir margt í málflutningi hennar. Það má að vísu færa rök fyrir því að hv. þingmaður sé ekki að tala við réttan þingmann og kannski ætti hv. þingmaður að tala við hv. forustumenn stjórnarandstöðunnar því að nú er kominn sá tími þingsins að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ansi mikið um það að segja hvernig málum vindur fram og hvernig vinnan verður, það er bæði gömul saga og ný.

Ég vonast bara til þess að við berum gæfu, og þá ekki bara stjórnarliðið heldur líka hv. stjórnarandstaða, til að finna góða niðurstöðu í málum þannig að við getum veitt framgang þeim málum sem mikilvægt er að klára og lýðræðislegur vilji er til að klára en jafnframt unnið málin vel. Það gerist ekki bara hér í þingsal, það gerist fyrst og fremst í nefndum þingsins. Mér sýnist nú þrátt fyrir allt að færri mál sem klára þarf liggi nú fyrir þinginu en oft áður á sama tíma árs og mörg mál hafa fengið mjög góða yfirferð í nefndum. Það er í það minnsta mikil breyting frá því sem var hér á síðasta kjörtímabili. En það breytir því ekki að við megum gera betur. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það hefur oft og tíðum ekki verið góður bragur á þingstörfum, en það er undir okkur öllum komið að það lagist. Ég þakka brýningu hv. þingmanns en það þarf fleiri til en bara okkur til að bæta vinnubrögðin og við lýsum okkur reiðubúin til að vinna vel úr þessum málum. Ég er sannfærður um að sá vilji er líka til staðar hjá hv. stjórnarandstöðu. Síðan leiðir tíminn það í ljós (Forseti hringir.) hvort við náum því fram sem við erum öll sammála um.