143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nýlega bárust tíðindi frá Þýskalandi sem ég tel að ættu að vera hv. þingmönnum mikið umhugsunarefni. Hæstiréttur Þýskalands úrskurðaði að setja ætti enn þrengri skorður við því en áður að stjórnmálamenn gætu haft áhrif á starfsemi þýska ríkisútvarpsins. Þannig vildi þýski hæstirétturinn árétta nauðsyn þess að almannafjölmiðlar væru eins óháðir hagsmunum stjórnmálaflokka og mögulegt væri.

Þetta er mjög merkilegur dómur og þarna setur Hæstiréttur Þýskalands skorður og segir að að hámarki þriðjungur stjórnarmanna megi vera skipaður af stjórnmálaflokkum. Þetta er mjög áhugavert í ljósi þess að það er ekki langt síðan, það var í fyrra, sem sett voru ný heildarlög um Ríkisútvarpið þar sem einmitt var gert ráð fyrir slíkri aðferðafræði við val á stjórnarmönnum í stjórn Ríkisútvarpsins, þ.e. að hv. allsherjar- og menntamálanefnd kæmi að því að velja fólk inn í stjórnina en aðrir aðilar ættu líka möguleika á að koma með hugmyndir að fólki inn í stjórn. Heildarsvipurinn á stjórninni átti að vera sá að þar sæti fólk með tiltekna hæfni en ekki að þar væru fulltrúar tiltekinna stjórnmálaflokka.

Nú er sem sé Hæstiréttur Þýskalands búinn að úrskurða um þetta með mjög ítarlegum dómi þar sem farið er af nákvæmni yfir þá hættu sem almannafjölmiðlum stafar af því að stjórnmálaflokkar velji fulltrúa í stjórn. Hvað hefur Alþingi Íslendinga gert? Jú, það breytti þessum nýju lögum þannig að stjórnmálaflokkarnir velja í stjórn Ríkisútvarpsins á Íslandi, öfugt við þróunina í öðrum Evrópuríkjum, öfugt við þá þróun sem við sjáum annars staðar á Norðurlöndum og nú er komin fram í Þýskalandi.

Ég vona að hv. þingmenn stjórnarflokkanna velti þessu fyrir sér í framhaldinu og taki upp í sínum þingflokkum hvort þetta sé virkilega sú þróun sem stjórnarflokkarnir vilja sjá í málefnum almannaútvarpsins á Íslandi, að stjórnmálaflokkarnir haldi áfram að skipa í stjórn þvert á alla þróun á alþjóðavettvangi í þessum málum.