143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða áfram málefni landsbyggðarinnar og þá óvissu sem víða er úti um land þegar sjávarútvegsfyrirtæki kjósa að loka starfsemi sinni. Ég er búin að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar þeirra fyrirtækja sem þarna eiga í hlut, hvort sem það er Vísir, eins og í þessu tilfelli, eða einhverra annarra. Ég er búin að kalla eftir ábyrgð stjórnvalda og aðgerðum af þeirra hálfu.

Menn verða að fara að gera upp við sig hvort þeir ætli að hafa byggð í landinu í þessum sjávarplássum sem við vitum að hafa háð baráttu fyrir lífi sínu í fjölda ára. Nú þarf að grípa til aðgerða gagnvart þeim byggðum sem eiga í hlut. Við höfum haft hér sóknaráætlun sem hefur gengið vel sem menn þvert á flokka hafa verið mjög ánægðir með framkvæmdina á. Í síðustu fjárlögum var hún skorin niður við trog og menn eru núna mjög óánægðir með framkvæmd ýmissa þátta eins og menningarsamnings og vaxtarsamnings. Þarna þarf að bæta verulega úr og setja fjármagn í sóknaráætlun sem getur aukið bæði fjölbreytni og tækifæri úti á landsbyggðinni, að heimamenn sjálfir vinni með tækifæri sem eru á hverjum stað.

Það þarf líka að vinna áfram með verkefni eins og Brothættar byggðir sem var hafið á síðasta kjörtímabili þar sem teknar eru út fyrir sviga þær byggðir sem eru í hættu, unnið með þeim að styrkingu áður en allt fer í voða.

Ég sé að hæstv. sjávarútvegsráðherra situr í hliðarsalnum. Nú hvílir mikil ábyrgð á hæstv. sjávarútvegsráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, að koma strax að þessum sjávarplássum með aðgerðir í gegnum verkefni eins og Brothættar byggðir. Það þolir enga bið.