143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er margt sem við höfum verið að ræða hér af góðri ástæðu vegna þess að það er margt sem fram kemur í fréttum sem er áhugavert og mikilvægt að taka upp á þessum vettvangi. Ég tek undir með þeim sem rætt hafa hér um ferðaþjónustuna, sem er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar, að það er mikið og stórt áhyggjuefni ef þær vísbendingar sem nú hafa birst í fjölmiðlum, um að mikið sé um svarta atvinnustarfsemi í þeirri atvinnugrein, eiga við rök að styðjast. Við gætum örugglega mætt því með auknu eftirliti en þetta snýst líka um viðhorf aðila í atvinnustarfseminni.

Það er margt sem bendir til þess að eitthvað sé um svarta atvinnustarfsemi hér og jafnvel mikla aukningu á henni. Við sjáum að aukning í kreditkortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi er 30% en aukning skatttekna er á sama tímabili aðeins um 10%.

Það er nokkuð sem ég vil vekja athygli á og brýna aðila til að bæta úr hið snarasta.

Einnig vil ég vekja athygli á dómi Evrópudómstólsins varðandi gagnageymd. Ég get ekki betur séð en að þar sé á ferðinni mikil bót fyrir neytendur þessara landa. Það kemur við okkur beint og óbeint ef við hugsum um hina svakalegu möguleika sem eru fyrir hendi varðandi það að geyma allra handa gögn um einstaklinga. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að skoða hér á landi því að það er svo mikið brot á friðhelgi einkalífsins að einhver fyrirtæki eða einstaklingar geti haft allar þær upplýsingar sem hægt er að hafa um einstaklinga í nútímaþjóðfélagi. (Forseti hringir.)

Ég vonast til þess að við náum góðri samstöðu um að skoða (Forseti hringir.) þessi mál vel með það að markmiði að vernda friðhelgi einkalífsins.