143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að bregðast við umræðum um ferðaþjónustu sem tveir hv. þingmenn hafa bryddað upp á hérna og þeirri staðreynd að svo mikið er af svartri atvinnustarfsemi í þeirri grein. Velta má fyrir sér eðli greinarinnar í þessu samhengi og þeirri staðreynd að framlegð þar er með því lægsta sem gerist. Ef grein leitar útrásar í svartri atvinnustarfsemi í þeim mæli sem hún gerir má velta fyrir sér eðli hennar og hvort það sé þá svo ánægjuleg þróun að hún sé að verða hryggjarstykkið í atvinnulífi landsins.

En ég ætlaði ekki að gera það að umtalsefni. Ég ætlaði að gera að umtalsefni frétt af vef Ríkisútvarpsins sem hv. þm. Guðlaugur Þór bryddaði upp á hér, þ.e. nýlegan dóm dómstóls Evrópusambandsins. Dómstóllinn ógilti nefnilega í gær Evrópulöggjöf sem skyldar símafyrirtæki til að safna og geyma gögn um net- og símnotkun fólks í allt að tvö ár. Dómurinn taldi tilskipunina brjóta gegn grundvallarreglum um að vernda skuli einkalíf fólks og persónugögn þess.

Í því samhengi vil ég benda á að slík lög gilda hér á landi. Fjarskiptalög setja þá skyldu á fjarskiptafyrirtæki að geyma upplýsingar í allt að sex mánuði. Þótt reyndar hvíli engin skylda á þeim að geyma innihald slíkra upplýsinga heldur ákveðin fjarskiptagögn er hins vegar svo, líkt og Vodafone-lekinn sýnir, að freisting eða ófagmennska og einhvers konar fúsk leiðir til þess að mun meira er hirt af gögnum en lögin ætla. Gengið er smáum skrefum á friðhelgi einkalífsins og nú er svo komið, sem dæmin sanna, að við erum komin á frekar hættulegt stig.

Í vinnslu er nú tillaga til þingsályktunar um gerð sáttmála um vernd friðhelgi einkalífsins í stafrænum miðlum frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sáttmálinn á að kveða um upplýst samþykki fyrir söfnun stafrænna upplýsinga, afturköllun þess samþykkis og hvaða gögnum megi safna, hver geymi þau, hvar og í hvaða formi og auk þess hvernig eigi að eyða þeim. Ég vil hvetja þingið í störfum sínum til að skoða vandlega þennan dóm Evrópudómstólsins, hafa hann til hliðsjónar við gerð sáttmálans og snúa hratt og örugglega af braut markaðsvæðingar einkalífsins og valdi fyrirtækja yfir okkur í gegnum geymslu upplýsinga.