143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera skerðingar á umframorku eða ótryggðri orku að umtalsefni. Á vormánuðum síðasta árs þurftu raforkufyrirtækin að grípa til umtalsverðrar skerðingar til kaupenda á umframorku og á útmánuðum 2014 hefur verið gengið enn lengra og er ekki séð fyrir endann á skerðingunum. Skerðingarnar koma niður á atvinnulífinu og íbúum á köldum svæðum, stofnunum sveitarfélaga og ríkisins. Skerðingar á raforku snúa t.d. að hitaveitum, sundlaugum, íþróttahúsum, heilbrigðisstofnunum, elliheimilum, skólum og atvinnufyrirtækjum eins og fiskþurrkun, fiskmjölsframleiðendum og stóriðju.

Afleiðingarnar eru m.a. þær að einstökum sundlaugum hefur verið lokað, hitaveitur og fjarvarmaveitur eru kynntar með olíu, sem leiðir væntanlega til hækkunar á gjaldskrám, rekstrargrunnur heilbrigðisstofnana er í uppnámi og dregið hefur verið úr framleiðslu í orkufrekum iðnaði. Skerðingunum fylgir því mikill viðbótarkostnaður fyrir einstaklinga, sveitarfélög, ríkissjóð og atvinnulífið auk umhverfiskostnaðar og kostnaðar við gjaldeyriskaup. Kaupendur að þessari orku geta að sjálfsögðu gert ráð fyrir skerðingum en væntanlega hefur enginn búist við þeirri stöðu sem er í dag. Einstök fyrirtæki hafa leitað eftir kaupum á forgangsorku eða dýrari raforku en samningar heimila það ekki, það væri því ekki mögulegt þó að sú orka væri til.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég geri þessi mál að umtalsefni hér er að mér finnst afskaplega mikilvægt að stjórnvöld fari vel yfir þá stöðu sem upp er komin og meti orsakir, afleiðingar og samspil þeirra við lög og reglur sem gilda á raforkumarkaði.