143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri vekja máls á gagnaleynd og gagnavernd og þeim möguleikum sem tæknin býður upp á í dag til að fylgjast með og hakka sig inn í gagnagrunna. Hér hefur verið nefndur úrskurður Evrópudómstólsins í gær en þar segir að ekki megi geyma gögn í óhæfilega langan tíma. Það er spurning um hvort það eru þrír mánuðir eða sex mánuðir en sum lönd hafa farið upp í þrjú ár. Síðan hefur það gerst í Póllandi að komið hafa fram 1,7 milljónir fyrirspurna frá opinberum aðilum inn í þennan gagnagrunn, sem sýnir að það er stórhætta á að grunnurinn verði misnotaður.

Ég ætlaði að vekja máls á öðru. Það kom í ljós í síðustu viku í Þýskalandi að hakkarar höfðu komist yfir 18 milljónir netfanga og leyniorð þeim tengdum — 18 milljónir. Nú er það komið í hendur einhverra aðila sem geta notað gögnin í ýmsum tilgangi. Það vekur upp spurningar um hversu vel við erum varin gegn slíkum hökkurum. Komið hefur í ljós að veila er í því dulkóðunarkerfi sem er einna mest notað, SSL. Ég hugsa að búið sé að laga hana núna en þá veilu notuðu þessir hakkarar sér. Öll gögn sem geymd eru eru í hættu gagnvart hökkurum og það er bara spurning um tíma, hvenær menn hakka t.d. símaupplýsingar, skattframtöl o.s.frv. Menn þurfa því að vera mjög vakandi og á verði gagnvart dulkóðun og veilum í henni, svo maður tali ekki um það sem NSA, Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna er að gera, en hún ku samkvæmt upplýsingum vera með eitt land í sigtinu sem hún geymir öll símtöl frá í allt að mánuð, ekki bara upplýsingar um símtöl heldur símtölin sjálf.