143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla hér um ákaflega jákvæðan og upplýsandi fund sem fjárlaganefnd átti í morgun. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur beðið fjárlaganefnd um að senda umsögn um frumvörpin sem verið hafa hér til umræðu varðandi skuldaniðurfellingarnar og notkun á séreignarsparnaðinum.

Það er skemmst frá því að segja að þar komu fyrst fulltrúar fjármálaráðuneytisins og fóru yfir frumvörpin og yfir galla og kosti þeirra. Síðan kom Seðlabankinn og svo greiningardeildir bankanna. Ég vil benda fólki á viðauka 2 í Peningamálum Seðlabankans frá 2014, en þar er farið yfir áhrif þessara frumvarpa. Mér finnst umræðan hér í þinginu undanfarna daga ekki hafa gefið rétta mynd af þeim góðu aðgerðum sem ríkisstjórnin stendur nú í. Þarna leysir ríkisstjórnin leysa fortíðarvanda, fer í einskiptisaðgerðir með skuldaniðurfellingu, lítur til framtíðar og gefur fólki kost á því að nota séreignarsparnað sinn til framtíðarsparnaðar sem er að hluta til greiddur niður af ríkinu á þann hátt að ríkið fellur frá skatttekjum sem annars féllu til.

Ég vil sérstaklega benda á að á bls. 2 í þessum viðauka er farið yfir séreignarsparnaðarfrumvarpið. Það er afar jákvætt hvað það nýtist vel leigjendum því að allir geta tekið þátt í þessum sparnaði varðandi séreignarsparnaðinn og notað það til húsnæðiskaupa. Þess vegna vil ég segja að hér með er sú míta afsönnuð sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram, að þarna sé ekkert fyrir leigjendur.