143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig aðeins til að segja við hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur sem ræddi hér fyrr í þessari umræðu um skipulag þingsins: Ég hef tekið eftir því að hv. þingmaður er tiltölulega ný og starfar nú sem þingflokksformaður og eflaust vill hún hafa gott skipulag á hlutunum. Maður skynjar líka annan tón í þeim sem koma hingað nýir inn í þingið en það virðist vera mjög erfitt að hafa hemil á þingstörfum eða kortleggja, ef nota má það orð, hvað mál tekur langan tíma. En ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar í þessa umræðu og vona að við getum starfað vel saman við að reyna að koma skikki á umræðu hér þannig að þingstörf gangi eðlilega fram. Ég þakka hv. þingmanni þessa umræðu.

Varðandi skuldaleiðréttinguna þá finnst mér það satt að segja mjög slæmt þegar menn sem kenna sig við félagshyggjuflokka á góðum stundum gera lítið úr því þegar verið er að rétta 80% íslenskra heimila hjálparhönd — 80% heimila. Þá geta menn komið hér í pontu og gert grín að því, bæði hv. þm. Helgi Hjörvar og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég kann ekki að meta þetta, ég segi það alveg hreint út.

En fyrst og fremst kom ég hingað upp og ætlaði mér að segja þingheimi frá því að í Þingvallanefnd í gær fengum við bréf frá umboðsmanni Alþingis, sem hann hafði reyndar stílað til forsætisráðuneytisins sem Þingvallanefnd heyrir undir, um að heimilt sé að taka svokölluð gestagjöld vegna köfunar og yfirborðsköfunar í gjánni Silfru á Þingvöllum. Það var heimilað og þessi úrskurður er frá umboðsmanni Alþingis. Það er náttúrlega út af því að verið er að veita ákveðna þjónustu (Forseti hringir.) í þessari auðlind en fyrir því er sem sagt fengin heimild.