143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[15:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka innilega fyrir að fá tækifæri til að fjalla um þennan málaflokk sem því miður er allt of sjaldan fjallað um miðað við hvað neyðin er gríðarlega mikil hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum mörgum hverjum.

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja í þessum málaflokki því að umfang neyðarinnar er svo stórt og svo sjaldan fjallað á Alþingi um málefni er tengjast honum. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrir að vilja eiga orðastað við mig.

Forseti. Staðreyndirnar tala sínu máli. Risastór hópur fólks á Íslandi á ekki fyrir mat um miðjan mánuð í hverjum mánuði, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Þessi hópur þarf að neita sér um að fara til læknis, veikt fólk þarf að neita sér um að leysa út lyfin sín, allt of margir bíða með kvíðahnút í maganum í hvert einasta skipti sem þeir þurfa að sanna veikindi sín til að fá lögbundna aðstoð og telja niður krónurnar sem eiga að endast út mánuðinn.

Ekkert má fara úrskeiðis, ekkert má bila og engin óhöpp mega verða. Risastór hópur fólks á ekki öruggt skjól, býr við þannig aðstæður að launin, bæturnar, lífeyririnn hækkar ekki í takt við verðið á grunnneysluvörum. Lífið er nú þannig að það er ófyrirséð og eitthvað fer alltaf úrskeiðis. Það kemur alltaf eitthvað upp á og þá verður eitthvað að láta undan. Það er ekki hægt að ná heilsu ef maður er stöðugt þjakaður af áhyggjum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem þjást þurfi líka að vera kerfissérfræðingar í kerfi sem ekki einu sinni þeir sem smíðuðu kerfið vita hvernig virkar. Ef svo væri væri næsta víst að ekki væru alltaf að koma upp kringumstæður í kerfinu þar sem búbót þýðir í næstu andrá kjaraskerðing.

Það er ekkert kjöt á þessum beinum. Það er búið að sjúga merginn úr beinunum og tafarlausu úrbæturnar og leiðréttingarnar fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja verða að gerast núna.

Forseti. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu eftirfarandi í aðdraganda kosninga í fyrravor þegar kemur að úrlausnum á því neyðarástandi sem skapast hefur hjá öryrkjum og mörgum ellilífeyrisþegum, flokksþing framsóknarmanna 2013, með leyfi forseta:

„Í málefnum aldraðra er eftirfarandi brýnasta viðfangsefnið:

Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí 2009 verði afturkölluð.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðinga þeirra (og kjaragliðnunar) á krepputímum.“

Framsóknarflokkurinn hefur líka lagt áherslu á að lífeyrir öryrkja og aldraðra verði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra á krepputímum. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra:

Hvenær á að bregðast við þessu loforði?

Landsfundur Sjálfstæðisflokks, með leyfi forseta:

„Sú kjaraskerðing, sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009, verði tafarlaust afturkölluð.“

Ég hlýt að spyrja: Hvenær?

Forseti. Það sem leiðrétt var á sumarþingi er hvorki í samræmi við ályktanir landsfunda stjórnarflokkanna né þau loforð sem forsvarsmenn flokkanna gáfu. Ég spyr því hæstv. ráðherra velferðar- og húsnæðismála hvort það sé ekki alveg öruggt að ráðherrann standi við að kjaraskerðingin verði tafarlaust afturkölluð.

Er ekki alveg öruggt að það gerist fyrir hið langa sumarhlé þingmanna?

Ég veit að hæstv. ráðherra vill standa vörð um þennan hóp. Það hefur ítrekað komið fram í ræðum. Ég vil því skora á hæstv. ráðherra að gera það og þingmenn allra flokka að standa með ráðherranum í því og greiða leiðina fyrir slíkar leiðréttingar í gegnum þingið þó að við séum komin fram yfir síðustu forvöð að leggja mál fram á Alþingi fyrir sumarhlé.

Forseti. Til mín hafa leitað svo margir með raunir sem nísta hjarta mitt og við getum ekki sem samfélag horft undan og varpað ábyrgðinni á aðra. Við hljótum að geta sammælst um að þeir sem eru veikir eða gamlir treysti á okkur, treysti á að kerfið grípi inn í erfiðleika þeirra. Við erum öll meðvituð um að kerfið virkar ekki. Það þarf að setja saman aðgerðaáætlun í skrefum sem útlistar hvernig kjör öryrkja og aldraðra verða bætt í kjölfar hrunsins og þeirrar skerðingar sem þá var farið í. Ég vona að hæstv. ráðherra útlisti slíka aðgerðaáætlun í þessari sérstöku umræðu og ég veit að fjölmargir binda miklar vonir við að ráðherrann sinni þessum málaflokki af djörfung.