143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[15:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu, ég tel mjög mikilvægt að taka á þessum málefnum. Ég er formaður nefndar sem hæstv. ráðherra skipaði með fulltrúum allra flokka og hagsmunaaðila. Sú nefnd hefur fundað einu sinni í viku og mér sýnist vera mjög jákvæður andi í þeirri nefnd, sérstaklega gagnvart starfsgetumatinu sem flestir telja bráðnauðsynleg, að horfa frekar á getu öryrkja en vangetu.

Ef horft er á stöðu elli- og örorkulífeyrisþega í gegnum hrunið, og það er sérstök undirnefnd í minni nefnd sem er einmitt að skoða það, var sett upp framfærsluuppbót í september 2008, rétt fyrir hrun. Hún var svo hækkuð 1. janúar, einmitt til þess að mæta vandræðum öryrkja. Hún hefur reyndar þann ókost að hún skerðist krónu á móti krónu og hefur haft mjög neikvæðar afleiðingar annars staðar, en hún hefur gert það að verkum að hún hækkaði allan lífeyri hjá þeim sem eiga ekki rétt í lífeyrissjóði um 20%. Sá lífeyrir hækkaði úr 150 upp í 180 þúsund fyrir þá sem eru einir, búa einir, og er núna 218 þúsund, það fær enginn minna en það.

Sú framfærsluuppbót, þessi 20% hækkun hjá þeim sem ekki áttu rétt í lífeyrissjóði, hefur bjargað þeim sem verst eru settir gegnum hrunið, miðað við aðrar stéttir eins og fólk sem er með lægstu laun og fólk sem hefur misst vinnuna og orðið atvinnulaust o.s.frv.

Síðan kemur til að þeir sem hafa réttindi í lífeyrissjóði, sá réttur er verðtryggður. Þegar verðbólgan var 18% hækkaði sá réttur um 18%, öndvert við það sem gerðist með laun í landinu, þannig að báðir þessir hópar eru sæmilega settir. En það eru vissulega hópar, eins og þeir sem hafa fjárfest (Forseti hringir.) og aðrir, sem eru verr settir.