143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Staða öryrkja í dag er mjög slæm. Það er að miklu leyti, ef ekki mestu, afleiðing hrunsins 2008 og er afleiðing þess að þá var tekið úr sambandi ákveðið samhengi milli bótagreiðslna og verðlags. Það var forsendubrestur. Það er í raun og veru eini forsendubresturinn sem ég þekki frá hruninu, persónulega. Ég tel verðbólguskot ekki vera neinn forsendubrest á 25–40 ára tímabili, það er frekar reglan ef eitthvað er, á Íslandi.

En þetta var forsendubrestur þegar kom að öryrkjum og ég hef lagt fram fyrirspurn um hvað það mundi kosta að koma málum aftur í það horf sem þau voru snemma 2008, bara til að fá töluna. Ég vænti þess að talan sé ægilega há en við getum í raun og veru ekki talað um það á rökréttan hátt, að mínu mati, fyrr en við höfum tölurnar sem blasa við okkur.

Það er fleira sem varðar hagsmuni öryrkja en greiðslurnar sjálfar, þótt þær séu að sjálfsögðu aðalatriðið. Það kom mjög skýrt í ljós eftir að Alþingi hafði samþykkt almannatryggingalögin í janúar á þessu ári að notendur Tryggingastofnunar ríkisins, og þetta kemur fram í samtölum mínum við öryrkja og vissulega bara í fjaðrafokinu sem átti sér stað í kjölfarið, treysta stofnuninni yfirleitt ekki fyrir persónuupplýsingum. Mér finnst það svolítið alvarlegt. Auðvitað var lögunum ætlað að auðvelda upplýsingameðferð til þess meðal annars að gera hlutina betri fyrir öryrkja. Gott og vel, en öryrkjar treysta ekki stofnuninni fyrir persónuupplýsingum. Það er mjög mikilvægt að við tökum mark á þeim ótta og reynum að búa þannig um hnútana að notendur stofnunarinnar treysti henni fyrir persónuupplýsingum, að allt ferlið sé gegnsætt og auðskiljanlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)