143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[16:02]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna, fyrir að koma henni hingað í þingsali. Þetta er vissulega stór og flókinn málaflokkur en það eitt og sér er ekki tilefni til að breyta honum sem slíkum, ekki endilega fyrir þá forsendu. Það er margt gott um þetta að segja að mörgu leyti. Það er verið að gera ýmislegt í einföldun kerfisins, til að mynda er reiknivél á vef Tryggingastofnunar sem er ágæt til að finna sér leiðir til að átta sig á hvað það er sem maður getur fengið í sinn hlut.

Þar kemur hins vegar það merkilega í ljós sem hv. þm. Helgi Hjörvar var að benda á, sá vandi sem blasir við þeim sem hafa einhverjar eilitlar tekjur með. Hér er til dæmis dæmi um fátæktargildru sem mig langar að fara með örlítið dæmi um.

Örorkulífeyrisþegi sem er með 35 þús. kr. í launatekjur á mánuði fyrir skatt, hefur fengið sitt fyrsta örorkumat um fertugt og býr með öðrum. Til ráðstöfunar hefur sá aðili 168 þús. kr. Ef sá hinn sami hefði engar atvinnutekjur, ekki eina einustu krónu, fengi hann nákvæmlega sömu krónutölu í ráðstöfunartekjur.

Hér er að leika inn hin sérstaka framfærsluuppbót til að ná lágmarksframfærsluviðmiði en hún skerðir krónu á móti krónu það sem menn hafa.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga og það þarf að laga. Þetta er stórmál. Það sem þarf jafnframt að laga í kerfinu er að greiðslur þurfa að hækka. Ég kýs að tala um venjulegar greiðslur og það skiptir máli, orðfærið skiptir líka máli. Þetta eru ekki bætur, þetta eru greiðslur. Þær þurfa að hækka, fólk verður að geta lifað af þeim og það er þá sérstaka framfærsluuppbótin sem þarf að laga sérstaklega. Ég vil draga það fram og leggja áherslu á það.

Einnig þarf, eins og hefur komið fram hér, þegar að endurvekja og viðhalda samkomulagi um víxlverkun milli lífeyriskerfa og almannatrygginganna. Við þurfum að gæta að því. Einnig vil ég draga fram samhliða því öllu saman vinnu við búsetuúrræði, sýn á það hvernig fólk geti búið með reisn óháð aðstæðum og ástæðum þeirra, samhliða allri vinnunni um örorkuna.