143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[16:07]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við erum öll sammála en þó gengur svona lítið. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal heyrir eru bundnar við hann miklar vonir og ég vona að við í nefndinni getum staðið undir þeim, svo sannarlega.

Eins og kom fram í máli ráðherra áðan hefur það komið fram í rannsókn sem unnin var fyrir Öryrkjabandalagið að helmingur öryrkja er ekki virkur. Ég er aðeins að hugsa hvað sé þá hægt að gera núna svo við séum ekki endalaust að bíða í þessum málum.

Ég þekki, og þið þekkið það raunar öll, að okkar ástkæra varaþingkona Freyja Haraldsdóttir er vinnandi fatlaður einstaklingur. Fyrir hana og marga aðra er erfitt að sinna því að vera virkur öryrki. Hér var Tryggingastofnun rædd áðan en hún er opin frá 10–15.30 á hverjum degi nema á föstudögum, þá er opið frá 10–12. Þetta er nokkuð sem við gætum breytt núna. Varaþingmaður okkar, Freyja Haraldsdóttir, spyr sig og okkur öll hin líka hvernig hún og aðrir fatlaðir einstaklingar eigi að geta verið virkir í vinnu sinni ef umgjörðin er þannig að þeir þurfa að skreppa til að ná í þá þjónustu sem Tryggingastofnunin veitir eða Hjálpartækjamiðstöð, það eru eins afgreiðslutímar þar. Við þurfum að bæta umgjörðina svo við getum eflt (Forseti hringir.) virkni hjá fólki. Það er hægt að gera það núna.