143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

dýralæknaþjónusta í dreifðum byggðum.

479. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég legg fyrirspurn fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum. Í kjölfar breytingar á lögum um dýralæknaþjónustu verða hér kerfisbreytingar árið 2011 sem innramma það að aðskilja eftirlitsþátt héraðsdýralækna og síðan tryggja þjónustu til dýralækninga til þess að hún sé aðgengileg á viðráðanlegum tíma og viðráðanlegum kostnaði ekki síst, til þess að tryggja dýravelferð.

Fyrirspurn mín er í fjórum liðum:

1. Er hafin endurskoðun reglugerðar nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum?

2. Er fyrirhugað eða hafið endurmat á þörf fyrir þjónustu á einstökum svæðum, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar, þ.e. er mögulegt að breyta þeim þjónustusvæðum sem áður hafa verið ákveðin og endurskoða það?

3. Hvernig er áformað að staðið verði að endurskoðun og mati á reynslu núgildandi fyrirkomulags?

Þá er ég í fjórðu spurningu að leita eftir því hvort ráðuneytið hyggst kalla eftir samstarfi við dýraeigendur og þá fyrst og fremst bændur á þeim svæðum sem þessa þjónustu þurfa að hafa til að tryggja velferð síns búfjár.